Haraldur Fraklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, kylfingar úr GR, voru nálægt því að komast í Opna breska meistaramótið en enduði á að deila ellefta sæti í úrtökumóti þar sem fjórir kylfingar fengu þátttökurétt á elsta og virtasta golfmóti heims.

Kylfingarnir tóku þátt í undankeppni á The Prince vellinum í dag þar sem 72 kylfingar börðust um fjögur sæti. Kylfingarnir léku tvo hringi í dag.

Haraldur og Guðmundur voru báðir í baráttunni allan tímann og voru alltaf skammt undan en komu í hus á pari vallarins.

Haraldur lék fyrri hringinn á einu höggi undir pari og seinni hringinn á einu höggi yfir pari en Guðmundur Ágúst lék báða hringina á pari vallarins.

Haraldur komst fyrstur karlkylfinga á Opna breska meistaramótið í úrtökumóti á The Prince vellinum árið 2018 en tókst ekki að leika það eftir í dag.