Haraldur Franklín Magnús, GR, leiðir fyrir lokahringinn á átta höggum undir pari á Thisted Forsikring mótinu sem er hluti af Ecco Nordic Tour mótaröðinni

Mótið fer fram í Danmörku og er lokahringurinn á morgun.

Haraldur leiðir með einu höggi eftir annan hring mótsins á átta höggum undir pari eftir að hafa leikið á fimm höggum undir pari vallarins í dag án þess að tapa höggi.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson sem leikur einnig fyrir hönd GR, náði ekki að fylgja eftir góðum fyrsta hring og deilir ellefta sæti á tveimur höggum undir pari.

Axel Bóasson náði sér aftur á strik og lék annan hringinn á einu höggi yfir pari eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á sjö höggum yfir pari.

Það er að miklu að keppa fyrir íslensku kylfingana sem eru að reyna að enda meðal fimm efstu í lok tímabilsins til að öðlast þáttökurétt á Áskorendamótaröð Evrópu.