Haraldur Franklín Magnús, GR, er búinn að tryggja sér þáttökurétt á Áskorendamótaröð Evrópu, næst sterkustu mótaröð Evrópu, á næsta tímabili en Rúv greinir frá þessu í dag.

Haraldur er annar kylfingurinn úr GR sem tryggir sér þáttökurétt fyrir næsta tímabil á eftir Guðmundi Ágústi Kristjánssyni.

Með því að enda meðal fimm efstu kylfinganna á Nordic Tour, mótaröð í Skandinavíu, tryggði Haraldur sér þáttökurétt fyrir næsta tímabil.

Haraldur verður því fjórði íslenski kylfingurinn sem öðlast þáttökurétt á Áskorendamótaröðinni á eftir Birgi Leifi Hafþórssyni, Axeli Bóassyni og Guðmundi Ágústi.

Vesturbæingurinn er einn fimm kylfinga sem eru komnir á annað stig af þremur í úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina, sterkustu mótaröð Evrópu og gæti því enn komist inn á hana fyrir næsta tímabil.