Skrýtnu keppnis­tímabili lauk í ensku úr­vals­deildinni í knatt­spyrnu karla um síðustu helgi. Kóróna­veirufar­aldurinn setti mark sitt á seinni hluta tíma­bilsins, sem leikinn var fyrir luktum dyrum og sótt­varnir voru í fyrir­rúmi þegar keppni hófst að nýju eftir pásu vegna veirunnar. Frétta­blaðið tók saman nokkra punkta frá leik­tíðinni og þá má sjá hér að neðan.


Inn­koma ársins

Portúgalski sóknar­tengi­liðurinn Bruno Fernandes sýndi það og sannaði hvað skapandi leik­maður getur breytt miklu fyrir lið. Fernandes kom til Manchester United frá Sporting CP í janúar­glugganum. Þessi skemmti­legi leik­maður bæði skapaði og skoraði mörk auk þess að gera leik­menn í kringum sig tölu­vert betri. Paul Pogba fann gleðina að nýju, Nemanja Matic varð mýkri í öllum sínum að­gerðum og sóknar­þrí­eyki liðsins naut síðan góðs af sköpunar­gáfu Portúgalans.

Bruno Fernandes hefur lyft leik Manchester United á hærra plan.
Fréttablaðið/Getty

Rauð­vín ársins

Jamie Var­dy eldist eins og gott rauð­vín þó svo að hann kjósi fremur sjálfur að drekka vodka í Burn þegar sá gállinn er á honum. Var­dy sem er orðinn 33 ára gamall varð marka­hæsti leik­maður deildarinnar en hann er þar af leiðandi elsti leik­maðurinn sem skorar mest í deildinni á einni leik­tíð. Slær hann met sem Didi­er Drogba átti. Það sem gerir af­rek Var­dy enn merki­legra er að hann treystir mikið á hraða sinn og kraft í leik sínum. Ekkert er farið að slá af í þeim efnum þó svo að árin færist yfir.

Jamie Vardy varð elsti leikmaðurinn sem skorað hefur flest mörk í deildinni á einni leiktíð.
Fréttablaðið/Getty

Síðasti sölu­dagur

Wes Morgan, varnar­maður Leicester City þurfti að hlamma sér af vara­manna­bekknum og leysa af í vörn liðsins á loka­sprettinum. Morgan lék vel í varnar­sinnuðu liði Leicester City sem varð enskur meistari um árið og fagnaði því vel og lengi í einum eða tveimur Captain Morgan. Brendan Rod­gers þarf lík­lega að klippa á nafla­strenginn og redda sér öflugri vara­skeifu í hjarta varnarinnar hjá liðinu.


Mesti bömmerinn

Jack Greal­ish skellti sér ansi hressi­lega inn um gleðinnar dyr þegar Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Bret­lands, hafði ný­verið sett sam­komu­bann á þjóðina. Grealist fór á sam­fé­lags­miðla og bað menn um að sýna á­byrgð. Nokkrum klukku­stundum síðar var hann mættur í partý og beit svo höfuðið af skömminni með því að aka heim undir á­hrifum og klessa glæsi­kerru sína. Daginn eftir þegar Greal­ish hafði inn­byrt Alca Seltzer henti hann í mynd­band þar sem hann sagðist draug­þunnur sjá eftir öllu saman.

Jack Grealish gerði skyssu fyrr á árinu og var lítill í sér daginn eftir.
Fréttablaðið/Getty


Upp­risa leik­tíðarinnar

Dýr­lingarnir hans Ralph Has­senhüttl voru niður­lægðir þegar Leicester City gjör­sigraði Sout­hampton síðasta haust með níu mörkum gegn engu. Margir töldu daga Austur­ríkis­mannsins vera talda í stjóra­starfinu á St. Mary‘s en eftir að hafa fengið upp­örvandi skila­boð frá Sir Alex Fergu­son reis liðið upp með Danny Ings í broddi fylkingar. Liðið sigldi lygnan sjó og lifir enn í deild þeirra bestu.


Sirkus tíma­bilsins

Wat­ford fór í gegnum straum­harðan ólgu­sjó á þessu langa tíma­bili. Nigel Pear­son tók við stjórnar­taumunum af Qu­iqu­e Sánchez Flor­es í desember en Flor­es hafði tekið við keflinu í brúnni af Javi Gra­cia. Þegar tveir leikir voru eftir af tíma­bilinu lenti Pear­son saman við Gino Pozzo, eig­anda fé­lagsins, og Hayden Mullins fékk það verk­efni að reyna að bjarga liðinu frá falli. Það gekk aftur á móti ekki og Wat­ford fylgir Norwich City og Bour­nemouth niður í ensku B-deildina.


Sjarmatröll misseranna

Chris Wild­er er krútt­legur karl sem stýrir gamal­dags bresku knatt­spyrnu­liði, Sheffi­eld United, að nafni sem kom öllum að ó­vörum með því að berjast um sæti í Evrópu­keppni allt til loka leik­tíðarinnar. Wild­er elskar að fá sér pintu á hverfi­sk­ránni í Sheffi­eld og notar al­mennings­sam­göngur á leið til og frá vinnu með lókalnum. Liðið spilar með 3-5-2 þar sem haf­sentar liðsins og væng­ba­k­verðir dæla inn krossum á öfluga fram­herja. Margar skemmti­legar sögu­línur hafa orðið til á leik­tíðinni í leik­manna­hópi liðsins.

Flestir bjuggust við því að Chris Wilder og lærisveinar hans hjá nýliðunum Sheffield United myndu vera í fallbaráttu en raunin varð svo allt önnur.
Fréttablaðið/Getty

Rangur maður á röngum tíma

Stuðnings­menn New­cast­le United supu all­flestir hveljur þegar Ste­ve Bruce var ráðinn í stjóra­stólinn af Mike Ashley síðast­liðið vor. Bruce sem er harður í horn að taka var auð­mýktin upp­máluð og skilaði New­cast­le United örugg­lega í höfn í reglu­bundið sæti liðsins um miðja deild. Seinni­hluta tíma­bilsins þurfti hann sí­fellt að svara fyrir hvernig honum litist á að sádí-arabískir olíu­furstar keyptu fé­lagið og spörkuðu honum út í hafs­auga fyrir Mauricio Pochettino sem hafði tekið pokann sinn hjá Totten­ham Hotspur, sem opnaði dyr fyrir endur­komu José Mourin­ho inn í deildina.