Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, segir að Hannes Þór Halldórsson verði áfram fyrsti kostur hjá landsliðinu þrátt fyrir að hann fái ekkert að spila með félagsliði sínu, Qarabag, þessa dagana.

Hamrén var spurður út í stöðu markmannana á blaðamannafundi í KSÍ í dag eftir að hafa valið Hannes, Rúnar Alex Rúnarsson og Ögmund Kristinsson í landsliðshópinn. 

Af þeim er aðeins Ögmundur fyrsti kostur hjá félagsliði sínu, Larissa í Grikklandi en Rúnar Alex hjá Dijon og Hannes hjá Qarabag hafa verið talsvert á varamannabekknum.

„Við erum með þrjá góða markmenn í landsliðshópnum. Hannes og Rúnar eru því miður ekki að spila mikið en Hannes er enn fyrsti kostur minn þótt að ég ætli ekki að gefa upp byrjunarliðið.“