Hannes Þór Halldórsson var valinn maður leiksins af mótshöldurum HM og styrktaraðilanum Budweiser eftir 1-1 jafnteflið við Argentínu í Moskvu í dag.

Hannes átti frábæran leik og kórónaði frammistöðuna með því að verja vítaspyrnu frá Lionel Messi í seinni hálfleik. Hann varði alls sex skot í leiknum.

Hannes lék sinn 50. landsleik í dag og hélt upp á áfangann með því að verja vítið frá Messi og tryggja Íslendingum stig í fyrsta leik þeirra á HM frá upphafi.

Sergio Agüero fann leiðina framhjá Hannesi á 19. mínútu en Alfreð Finnbogason jafnaði metin fjórum mínútum síðar og þar við sat. Lokatölur 1-1.