Undanfarna mánuði hafði hvert stórmálið á fætur öðru dunið á Knattspyrnusambandi Íslands og leikmönnum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Nokkrir liðsfélagar Hannesar með landsliðinu eru sakaðir um kynferðislegt ofbeldi og allt í einu hafði öll umræða um frábæran árangur liðsins undanfarin ár horfið.

Mér finnst þetta erfitt, þetta er bara flókið mál í alla staði

Hannes var hluti af landsliðshópi Íslands í september sem þurfti að standa sína plikt á meðan að ósköpin dundu yfir. ,,Mér finnst þetta erfitt, þetta er bara flókið mál í alla staði. Ég var með liðinu í september þegar að svona mesti hitinn var í gangi og þar vissi enginn í hvorn fótinn ætti að stíga. Við vorum að reyna einbeita okkur að því að spila þessa leiki sem átti að spila og á sama tíma að fylgjast með fréttum af stjórninni, væri hún á leiðinni út eða ekki. Það voru beinar útsendingar fyrir framan KSÍ marga daga í röð.“

Breyta þurfti um stefnu og leggja traust á framtíðarleikmenn Íslands fyrr en áætlað var, leikmenn sem margir hverjir höfðu enga reynslu af því að leika fyrir A-landsliðið. ,,Þetta er stórt mál og hefur gert það að verkum að kynslóðaskiptin í landsliðinu hafa komið hraðar en búist var við. Nú er komið nýtt lið og þetta lið getur einbeitt sér að því að spila fótbolta, það þarf ekki að hafa áhyggjur af öðrum málum,“ sagði Hannes í þættinum Segðu mér á Rás 1 í morgun.

Hannes í síðasta landsleik sínum
GettyImages

Hefði verið að teygja lopann

Þetta reyndist síðasta landsliðsverkefni Hannesar sem ákvað að leggja landsliðshanskana á hilluna eftir leik Íslands og Þýskalands þann 8. september síðastliðinn. Hann segir þennan tímapunktinn sem hann valdi til þess að hætta ekki vera verri en einhver annar tímapunktur.

,,Þetta er ekkert sem ég get stjórnað (aðstæðurnar sem sköpuðust í kringum landsliðið). Mér fannst tíminn vera hárréttur fyrir mig að hætta. Þarna voru liðin akkúrat tíu ár síðan að ég spilaði minn fyrsta A-landsleik og ég fann það innra með mér að nú væri bara komið gott. Ef ég hefði haldið áfram þá væri tilfinningin hjá mér sú að ég væri bara að teygja lopann og væri ekki alveg heill í því. Mér fannst bara enginn spurning um það að ég myndi láta gott heita og var bara ánægður með þá ákvörðun þó svo að aðstæður í kringum liðið hafi verið erfiðar.“

Hann segir það hafa verið frábært að finna fyrir þakklætinu frá landsmönnum eftir að hann tilkynnti um ákvörðun sína að hætta spila fyrir landsliðið. ,,Í gegnum landsliðsferil minn með Íslandi hef ég fundið fyrir miklum stuðningi, velvild og meðbyr í okkar garð. Það hefur verið eitthvað minna af því undanfarið en þarna fann ég þetta allt koma aftur. Fann það hversu ánægt fólk var með það sem maður hefur gert og fólk hefur gengið í gegnum okkur með.“

Hannes Þór Halldórsson, spilaði 77 leiki fyrir íslenska karlalandsliðið og er talinn einn besti markvörðurinn sem spilað hefur fyrir Íslands hönd.