Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Hannes samþykkt tilboð Vals og kaus hann að semja við ríkjandi Íslandsmeistara frekar en KR. Samkvæmt sömu heimildum eru Valsmenn tilbúnir að bjóða Hannesi talsvert betri kjör en KR gat boðið.

Hannes Þór Halldórsson hefur heyrt frá félögum hér á landi og félögum erlendis en þetta staðfesti Ólafur Garðarsson, umboðsmaður landsliðsmarkmannsins í dag.

Hannes er enn samningsbundinn Qarabag í Aserbaídsjan og segir Ólafur að það eigi enn eftir að leysa hans mál þótt að það sé áhugi, meðal annars á Íslandi og annarsstaðar í Evrópu.

„Það er ekki komið svo langt að Hannes sé að semja við Val. Hans staða gæti breyst á næstu dögum og mánuðum, það er áhugi frá Svíþjóð, Noregi og fleiri löndum en hann er samningsbundinn Qarabag í átján mánuði í viðbót og það er talsvert sem þarf að gerast til þess að hann fái að fara,“ sagði Ólafur sem staðfesti að íslensk lið hefðu haft samband.

„Það eru fleiri íslensk lið en KR og Valur sem hafa sýnt Hannesi áhuga en það er ekki búið að skrifa undir neitt.“