Hannes Jón Jónsson hefur rift samningi sínum við handknattleiksdeild Ungmennafélagsins Selfoss og mun ekki taka við þjálfun liðsins á næsta keppnistímabili.

Aðilar hafa náð samkomulagi um starfslok Hannesar og skilja í sátt. Handknattleiksdeildin óskar Hannesi velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur.

Handknattleiksdeild Ungmennafélags Selfoss hefur hafið leit að nýjum þjálfara og mun deildin vinna það eins hratt og kostur er.

Hannes Jón vill koma eftirfarandi á framfæri: „Ég þakka handknattleiksdeild Ungmennafélags Selfoss kærlega fyrir skilninginn og að gera mér kleift að takast á við annað verkefni erlendis.

Ég vil taka fram að forsvarsmenn handknattleiksdeildarinnar hafa verið fagmannlegir með eindæmum í öllum okkar samskiptum frá fyrsta degi. Árangur undanfarinna ára talar sínu máli og er engin tilviljun.

Í mínum augum er Ungmennafélagið Selfoss frábær kostur fyrir metnaðarfulla leikmenn sem vilja ná langt. Að því sögðu vil ég óska handknattleiksdeild Ungmennafélags Selfoss alls hins besta og velfarnaðar.“