Hannes Þór hefur um langt skeið verið í fremstu röð bæði í fótbolta og sem leikstjóri. Hannes hefur mest unnið að auglýsingum og tónlistarmyndböndum.

Nú þegar hann hefur stýrt sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd er staða hans í fótboltanum í óvissu. Valur vill losna við hann en Hannes sem er 37 ára er með samning út næsta ár.

COVID-sérfræðingurinn Björn Ingi Hrafnsson var einn af þeim sem fékk boð á forsýninguna í gær þar sem Hannes hélt ræðu fyrir mynd. „Leikstjórinn sagði í skemmtilegu ávarpi fyrir mynd að Leynilöggan væri ódýr mynd, jafnvel á íslenskan mælikvarða. „Þetta er ekki low-budget mynd, þetta er no-budget mynd,“ sagði hann kankvís og benti á að ef þetta klikkaði gæti hann alltaf farið aftur í fótboltann í Val, þar sem hann ætti fast sæti. Með því sló hann taktinn fyrir þann húmor á eigin kostnað sem var framundan, því Valsmenn eru komnir með nýjan markmann og alls óvíst með framtíð landsliðskempunnar í fótboltanum," skrifar Björn Ingi á vef sinn Viljinn.is.

Hannes og þeir sem koma að myndinni.

Björn Ingi segir að Hannes þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur þegar ferill hans í fótbolta tekur enda. „Hannes Þór þarf hins vegar nákvæmlega engar áhyggjur að hafa. Ég spái því að landsmenn muni flykkjast á þessa mynd. Hollywood verður heldur ekki lengi að þefa uppi þá hæfileika sem þarna búa og fá honum alvöru fjármagn til að gera stórmyndir á næstu árum. Þið lásuð það fyrst hér. Leynilöggan er frábær afþreying, reynir aldrei að vera eitthvað meira en hún er, og fyrir vikið skemmta sér allir konunglega.“