Max Verstappen, ríkjandi heimsmeistari í Formúlu 1 sem og ökumaður Red Bull Racing telur það ekki vera réttu leiðina að tengdaföður hans Nelson Piquet verði meinað að mæta á viðburði á vegum F1 í kjölfar rasískra ummæla sem hann lét falla í garð Sir Lewis Hamilton, sjöfalds heimsmeistara í F1.

Piquet, sem varð á sínum tíma þrefaldur heimsmeistari í mótaröðinni lét ljót orð falla um Hamilton þegar hann rifjaði upp atvik frá síðasta tímabili í tengslum við Silverstone-kappakstutrinn. Verstappen og Hamilton háðu ótrúlega baráttu á síðasta tímabiliog sá fyrrnefndi stóð upp sem heimsmeistari.

Piquet ákvað að gera grín að húðlit Hamilton með niðrandi ummælum þegar hann talaði um að breski ökuþórinn hafi verið heppinn að Verstappen hafi lent í árekstrinum en að Bretinn hafi sloppið nokkuð vel.

,,Allir hlutaðeigandi eru á móti kynþáttaníð, ég tel það alveg skýrt. Orðavalið var hins vegar ekki rétt," sagði Verstappen í viðtali um orð tengdaföður síns.

Verstappen er með Kelly Piquet, dóttur Nelsons. ,,Ég hef eitt meiri tíma með Nelson en venjulegur maður gerir og hann er klárlega ekki rasisti. Hann er virkilega góður og rólegur maður.

Nelson hefur beðist afsökunar á ummælum sínum og segir orðalag sitt ekki heppilegt. Það hefur kvissast út í fjölmiðla að forráðamenn Formúlu 1 hafi það nú til skoðunar að banna hann frá viðburðum í Formúlu 1 en Verstappen telur það ekki réttu leiðina.

,,Það er betra að opna á samtalið frekar en að grípa til banns. Þegar að þú bannar fólk þá ertu ekki að bæta aðstæðurnar, þú ert ekki að opna á samtalið. Við viljum reyna að upplýsa og fræða fólk um þessi málefni, samskipti skipta miklu máli."