Í tilkynningu frá lögreglunni í Manchester í gær kemur fram að tíu einstaklingar hafi nýverið verið handteknir í tengslum við mótmælin.

,,Tíu einstaklingar voru handteknir í morgun í tengslum við mótmæli fyrir leik Manhcester United og Liverpool á Old Trafford í maí. Tíu menn á aldrinum 20-51 árs voru handteknir vegna gruns um ofbeldisfulla hegðun og ránstilraunir í tengslum við mótmælin," segir í tilkynningu frá lögreglunni í Manchester.

Mótmælin urðu til þess að leik Manchester United og Liverpool var frestað. Mótmælendur náðu að brjóta sér leið inn á Old Trafford og vinna skemmdarverk bæði innan og utan vallar.

Uppspretta mótmælanna var óánægja stuðningsmanna Manchester United með eignarhald Glazer fjölskyldunnar á félaginu. Almenn óánægja með eigendur félagsins hefur verið við líði í nokkur ár, dropinn sem fyllti mælinn var ákvörðun eigendanna um að Manchester United gerðist stofnaðili að Ofurdeildinni, deild sem á endanum ekkert varð af.