Eftir að Rashford, Jadon Sancho og Bukayo Saka brást bogalistin á vítapunktinum var ljóst að Ítalir urðu Evrópumeistarar. Fljótlega fór að bera á kynþáttaníði á samskiptamiðlum leikmannana.

Enska knattspyrnuhreyfingin hefur undanfarin ár barist fyrir hertum refsingum fyrir slík skilaboð á samskiptamiðlum og hafa nokkrir leikmenn stigið fram og greint frá skilaboðum sem þeim hefur borist.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur komið drengjunum til varnar ásamt Vilhjálmi Bretaprins en Boris hafði í hótunum við yfirmenn samskiptamiðlanna að kominn væri tími til aðgerða í dag.

Þar boðaði hann að Bretland gæti leitað til þess að beita sektum sem jafngildi tíu prósent af heildarinnkomu fyrirtækjanna ef þeir myndu ekki stöðva kynþáttafordóma og annað netníð á miðlum sínum.