Erik Hamrén á von á erfiðri kveðjustund í kvöld þegar hann kveður landsliðið og þjálfarateymið eftir lokaleik sinn með íslenska karlalandsliðið.

Hamrén lætur af störfum um áramótin eftir rúm tvö ár í starfi sem þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu.

Ísland átti engin svör gegn Englandi í lokaleiknum undir stjórn Hamrén þegar England vann 4-0 sigur.

„Fyrst og fremst er ég ósáttur með spilamennskuna í dag. Við létum Englendinga líta vel út í fyrri hálfleik. Spilamennskan var betri í seinni en það var erfiðara að verjast með tíu leikmenn.“

Hann var spurður út í kveðjustund sína sem þjálfari íslenska landsliðsins.

„Ég hef ekki leitt hugann mikið að þessarri stundu en það verður erfitt að kveðja starfsfólkið og leikmennina í kvöld.“