Erik Hamrén sem tók nýlega við íslenska landsliðinu í knattspyrnu, mun á föstudaginn tilkynna leikmannahópinn fyrir leiki Íslands gegn Sviss og Belgíu í næsta mánuði sem verða fyrstu leikir hans sem landsliðsþjálfari.

Eru leikirnir fyrstu leikir Íslands í Þjóðadeild UEFA og hefst landsliðsþjálfaraferill Hamrén á leik gegn Sviss ytra þann 8. september næstkomandi.

Taka Strákarnir okkar á móti bronsliðinu frá HM, Belgíu, þriðjudaginn 11. september í seinni leik þessa landsleikjahlés.

Hefur Hamrén verið við störf í tvær vikur sem þjálfari íslenska landsliðsins og unnið í að skoða leikmennina sem standa til boða ásamt Frey Alexanderssyni, aðstoðarþjálfara sínum.

Verður fróðlegt að sjá hvort að honum hefur tekist að fá Ragnar Sigurðsson, miðvörðinn sterka, af því að hætta með landsliðinu en hann tilkynnti það eftir HM í Rússlandi í sumar.