Erik Hamrén mun stýra íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu næstu tvö árin en hann var kynntur til leiks sem nýji þjálfari landsliðsins á blaðamannafundi í dag.

Tekur hann við liðinu af Heimi Hallgrímssyni sem hætti störfum fyrir KSÍ fyrr í sumar eftir sjö farsæl ár sem aðstoðar- og aðalþjálfari landsliðsins.

Mun Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins, vera honum til aðstoðar hjá landsliðinu en hann sinnir því ásamt því að þjálfa kvennalandsliðið á sama tíma.

Hamrén sem er 61 árs Svíi tók á sínum tíma við sænska landsliðinu af Lars Lagerback og stýrði sænska landsliðinu í sjö ár.

Skrifaði hann undir tveggja ára samning við KSÍ með möguleika á framlengingu til tveggja ára ef vel gengur.