Smitrakningateymi Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra hefur tilkynnt að allt starfslið íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu skuli nú þegar fara í sóttkví vegna COVID-smits starfsmanns liðsins. 

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu knattspyrnusambands Íslands, KSÍ.

Fulltrúar fjölmiðla eru vinsamlegast beðnir um að bíða átekta á meðan verið er að greina stöðuna og vinna úr upplýsingum. Frekari upplýsingar verða veittar eins fljótt og mögulegt er.

Eins og staðan er núna hefur ekkert smit greinst í hópi leikmanna og ekkert sem bendir til þess að leikur Íslands við Belgíu sem er á dagskrá í Þjóðadeildinni annað kvöld geti ekki farið fram.

Íslenska U-21 árs landsliðið er statt í Lúxemborg þar sem liðið spilar við heimamenn í undankeppni EM 2021 í dag. Því er líklegt að Þorvaldur Örlygsson og Davíð Snorri Jónasson, þjálfarar U-19 og U-17 ára landsliðanna muni stýra íslenska liðinu í leiknum gegn Belgum annað kvöld.

Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari U-21 árs landsliðsins, fór ekki með til Lúxemborgar þar sem hann tók út leikbann í leiknum og kemur hann því til greina í þjálfarateymi íslenska liðsins.