Erik Hamrén og Freyr Alexandersson, þjálfarar íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hafa fengið leyfi hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra til þess að vera í glerbúri fyrir ofan stúkuna á Laugardalsvellinum á meðan á leik Íslands og Belgíu stendur í Þjóðadeildinni annað kvöld.

Það er 433.is sem greinir frá þessu.

Hamrén og Freyr munu því líklega fjarstýra íslenska liðinu í gegnum samskiptabúnað en ekki hefur verið tilkynnt hverjir munu vera á hliðarlínunni og stýra liðinu þaðan.

Fram kemur í frétt 433.is að leikmenn íslenska liðsins séu áhyggjufullir að spila leikinn við þær aðstæður sem uppi eru. Ekkert smit hefur greinst í leikmannahópi liðsins. Af þeim sökum verður leiknum ekki frestað.