Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, sagði á upplýsingafundi sem haldinn var í hádeginu í dag að það hefðu verið mistök að leyfa Erik Hamrén og Frey Alexanderssyni, þjálfurum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, að vera staddir á Laugardalsvellinum á meðan á leik Íslands og Belgíu stóð í Þjóðadeild UEFA í gærkvöldi.

„Þórólfur [Guðnason], sóttvarnarlæknir, benti mér á það í morgun að það hafi verið mistök að leyfa þjálfurum íslenska landsliðsins að yfirgefa sóttkví til þess að vera viðstaddir leikinn í gærkvöldi. Það hafi ekki verið rétt að veita þá undanþágu sem við veittum," sagði Víðir á fundinum.

„Ég taldi að það umhverfi sem allir starfsmenn landsliðsins voru í og það sem við köllum vinnusóttkví væri nægjanlegt til að þetta væri heimilt. Sóttvarnalæknir hefur bent mér á það í morgun að þetta sé ekki rétt og að þeir hefðu ekki átt að fá þetta leyfi.“

„Þetta var afskaplega slæmt fordæmi og ég tek á mig alla ábyrgð í þessu máli," sagði Víðir enn fremur.

„Þetta er sérstaklega slæmt fyrir mig vegna mína fyrri tengingar við íþróttastarfið,“ sagði yfirlögregluþjónninn um málið en hann starfaði áður sem öryggisstjóri hjá knattspyrnusambandi Íslands. Hann mun ekki taka ákvarðanir er varða íþróttamál og faraldurinn hér eftir í starfi sínu.

Víðir tjáði sig einnig um frétt Fréttablaðsins þar sem fram kemur að starfsmenn knattspyrnusambandsins hafi brotið bæði reglur UEFA sem og íslenskar sóttvarnarreglur í fögnuði sínum eftir sigur íslenska liðsins gegn Rúmeníu í umspili um laust sæti á EM 2021 á fimmtudaginn í síðustu viku.

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson fengu undanþágu frá vinnusóttkví í gærkvöldi.
Anton Brink