Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, mun í dag tilkynna leikmannahópinn fyrir leiki liðsins gegn Andorra og Frakklandi í undankeppni Evrópumótsins 2020. Fram undan eru fyrstu leikir Íslands í undankeppninni.

Ísland hefur leik gegn Andorra ytra á föstudaginn í næstu viku áður en Strákarnir okkar mæta ríkjandi heimsmeisturum Frakklands á þjóðarleikvangi Frakka, Stade de France. 

Liðið kemur saman eftir helgi og æfir á Spáni áður en það heldur yfir til Andorra fyrir leikinn. 

Þetta verður í sjötta sinn sem Ísland mætir Andorra og hefur Ísland unnið alla fimm leikina án þess að fá á sig mark en í þrettánda sinn sem Ísland mætir Frakklandi og bíður Ísland enn eftir fyrsta sigrinum.

Þá eru þjálfarar íslenska landsliðsins eflaust orðnir óþolinmóðir að bíða eftir fyrsta sigrinum eftir átta leiki í röð án sigurs undir stjórn Hamréns og alls fjórtán leiki án sigurs hjá íslenska karlalandsliðinu.