West Ham er um þessar mundir í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 23 stig eftir ellefu umferðir. Liðið vann góðan 3-2 sigur á Liverpool í gærkvöldi, fjórði sigur liðsins í röð.

Pablo Fornals, leikmaður West Ham, skoraði eitt markanna í sigri gærkvöldins. Hann segir of snemmt að segja til um það hvort West Ham geti gert atlögu að Englandsmeistaratitlinum. ,,Við berjumst til sigurs í hverjum einasta leik og því ekki að leyfa okkur að dreyma."

West Ham var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á síðusu leiktíð og liðið virðist ætla vera í sömu baráttu á þessu tímabili.

Árangur West Ham árið 2021 er áhugaverður. Liðið hefur safnað 65 stigum á árinu í ensku úrvalsdeildinni en aðeins Chelsea og Manchester City hafa safnað fleiri stigum.

David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham, segir liðið ekki vera í titilbaráttu. ,,Ég reyni að vera jákvæður öllum stundum. Ég tel okkur geta verið í titilbaráttu en ég sé það ekki gerast á þessari stundu."

David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham United
GettyImages