Lewis Hamilton fór með sigur af hólmi í Formúlu 1 kappakstrinum sem fram fór á Silverstone í Englandi í dag. Þetta var sjötti sigur hans á brautinni og bætti hann þar af leiðandi met samlanda síns Jim Clark. Hamilton jafnaði enn fremur met Frakkans Alain Prost yfir flesta sigra á heimavelli.

Sigurinn í dag var sá 80. á Formúlu 1 mótum hjá Hamilton en metið á Þjóðverjinn Michael Schumacher sem vann 91 mót á sín­um tíma.

Hamilton hefur nú unnið sjö af tíu kappökstrum keppnistímabilsins og hefur 39 stiga forskot á Finnann Valtteri Bottas samherja sinn hjá Mercedes Benz sem er í öðru sæti á listanum yfir stigahæstu ökuþóra tímabilsins.

Breski ökuþórinn komst fram úr Bottas sem var á ráspól þegar þjónustubíll var á brautinni og hélt forystunni allt til enda keppninnar.

Sebastian Vettel sem keyrir fyrir Ferrari og Max Verstappen ökumaður Red Bull Racing Honda lentu í árekstri í keppninni en Vettel fékk tíu sekúndna refsingu fyrir áreksturinn og hafnaði í 15. sæti. Verstappen náði hins vegar að enda í fimmta sæti.

Bottas varð í öðru sæti í kappakstrinum í dag, Ferrari-maðurinn Charles Leclerc hreppti þriðja sætið og Pierre Gasly endaði í því fjórða.