Sir Lewis Hamilton hefur verið ökumaður í Formúlu 1 síðan árið 2007 og hefur á þeim tíma unnið sjö heimsmeistaratitla sem ökumaður og ennþá fleiri með liðum sínum. En í gær upplifði Hamilton aðstæður sem hann hefur aldrei lent í áður eins og hann greindi frá á Instagram síðu sinni.

Það er vani hjá Formúlu 1 að ökumenn deili sér niður á bíla og láti bílstjóra aka sér einn hring um brautina og þá aðallega í þeim tilgangi að geta gefið áhorfendum tækifæri á að sjá ofurhugana sem keppa í mótaröðinni áður en þeir fara að græja sig fyrir komandi keppni.

Fyrir keppni gærdagsins, sem var sú fyrsta í Miami í Bandaríkjunum lenti Hamilton í því í fyrsta skipti að bílstjórinn sem ók honum um brautina ákvað að spila tónlist í bílnum.

,,Ég hef verið hér í 16 ár en hef aldrei lent í því að einhver spili tónlist á hringnum fyrir keppni. Minn maður var að djamma í bílnum og stemmningin var góð," skrifaði Hamilton við myndband sem hann birti á Instagram síðu sinni en myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

Hamilton lauk keppni í 6. sæti í Miami í gær og átti á tímabili í mikilli baráttu við liðsfélaga sinn George Russell. Það var hins vegar ríkjandi heimsmeistarinn Max Verstappen sem bar sigur úr býtum í keppninni og Ferrari ökumennirnir Charles Leclerc og Carlos Sainz enduðu í 2. og 3. sæti.