Hamilton keppir í Formúlu 1 í Katar um helgina en mikil umræða hefur verið uppi um bága stöðu mannréttinda þar í landi, sér í lagi í tengslum við Heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fer fram þar í landi í eftir ár.

Þetta er í fyrsta skipti sem keppni í Formúlu 1 fer fram í Katar en Hamilton ætlar ekki að þegja yfir því slæmu ástandi mannréttinda þar í landi.

Hjálmur Hamilton skartar regnbogafána um helgina
GettyImages

,,Við vitum af vandkvæðum er snúa að mannréttindamálum hér. Katar er sagt vera með einn slakasta árangur í heimi hvað mannréttindi varðar. Þegar að íþróttaviðburðir eru haldnir í slíkum löndum er það á ábyrgð skipuleggjenda að vekja athygli á þessum vandkvæðum," sagði Hamilton í viðtali á dögunum.

Hann segir einn talsmann bættra mannréttinda geta lítið gert þeim til framdráttar, saman geti íþróttafólk hins vegar stuðlað að breytingu til hins betra.

,,Ef við erum að koma hingað til þess að keppa þá þurfum við að vekja athygli á þessum málaflokki. Væri ég til í að fleira íþróttafólk léti í sér heyra? Já," sagði Sir Lewis Hamilton, ökuþór Mercedes í Formúlu 1.

Yfirstjórn Formúlu 1 hefur legið undir mikilli gagnrýni fyrir að samþykkja það að halda keppnir í löndum á borð við Katar og Sádi-Arabíu þar sem staða mannréttinda er slæm. Stefano Domenicali, framkvæmdarstjóri Formúlu 1 segir íþróttina hins vegar geta bætt ástandið ytra.

,,Ég trúi því að kastljósið sem við erum að beina á þessi ríki muni stuðla að breytingu til hins betra. Ég trúi því ekki að með því að loka á ríki munum við bæta stöðuna. Það mun bara leiða til verri hluta," sagði Stefano Domenicali, framkvæmdarstjóri Formúlu 1 í viðtali við BBC í vikunni.