Breski ökuþórinn Lewis Hamilton sem hefur unnið Formúlu 1 kappaksturinn síðustu fimm árin segir að það sé áskorun fyrir forráðamenn Mercedes að bregðast við endurbættum bíl hjá samkeppnisaðila sínum Ferrari.

Hamilton segir það verða erfitt að keppa við þennan bíl og Mercedes-menn verði að bæta sinn eigin bíl.

Ökuþórar Ferrari voru í tveimur efstu sætunum í kappakstrinum í Singapúr um helgina en Sebastian Vettel varð í fyrsta sæti og Charles Leclerc varð annar. Ferrari hefur átt sigurvegarann í síðustu þremur kappökstrum sem er lengsta sigurhrina framleiðandans í 11 ár. Þetta er í annað skipti síðustu sex árin sem Mercedes nær ekki að fara með sigur af hólmi.

„Þeir hafa bætt bílinn sinn umtalsvert og það er mun meiri kraftur í bílnum þeirra núna. Það hefur skilað þeim 20-30 stigum sem var ekki var búist að þeir myndu ná í. Þá hafa þeir verið að gera betur á viðgerðarsvæðinu í síðustu kappökstrum," segir Hamilton um stöðu mála.

„Við höfum náð að gera vel þrátt fyrir að vera ekki með besta eða kraftmesta bílinn síðustu árin. Bíllinn okkar ræður ekki við Ferrari bílinn á beinum kafla eftir þessar breytingar hjá bílnum þeirra. Bíllinn okkar hefur dugað vel en nú verðum við að skoða málin í framhaldinu," segir þessi sigursæli ökuþór.

Þrátt fyrir úrslitin í síðustu þremur kappökstrum þá er Hamilton enn með öruggt forskot á toppnum í baráttu um Formúlu-titilinn. Hamilton hefur 65 stigum meira en liðsfélagi sinn Valtteri Bottas og Ferrari-maðurinn Leclerc er 96 stigum á eftir forystusauðnum þegar sex kappakstrar eru eftir.