Sir Lewis Hamilton, sjö­faldur heims­meistari í For­múlu 1 og öku­maður Mercedes, tjáði sig um at­burðar­rásina sem átti sér stað í Abu Dhabi kapp­akstrinum á síðasta tíma­bili þar sem mögu­leikar hans á áttunda heims­meistara­titlinum fuku út um gluggann eftir vafa­samar á­kvarðanir keppnis­stjórans Michael Masi. Hamilton segist eiga erfitt með að koma þeim í orð, til­finningunum sem hann fann á þessum tíma.

Bar­átta Sir Lewis Hamilton og Max Ver­stappen um heims­meistara­titil öku­manna á síðasta tíma­bili fer í sögu­bækurnar sem ein sú harðasta í sögu For­múlu 1. Úr­slitin réðust á loka­hringnum í loka­keppni tíma­bilsins en fyrir hann virtist allt stefna í að Hamilton myndi vinna sinn áttunda heims­meistara­titil og þar með taka fram úr Michael Schumacher og setja nýtt met í fjölda heims­meistara­titla.

Ég veit ekki hvort ég geti komið þeim í orð, til­finningunum sem ég upp­lifiði á þessum tíma

,,Maður sér á­kveðna at­burðar­rás fara af stað og minn versti ótti varð að veru­leika," segir Hamilton í ítar­legu við­tali við Vanity Fair um stundina sem hann áttaði sig á að ekki var allt með felldu undir lok kapp­akstursins í Abu Dhabi.

,,Ég hugsaði með mér að það væri ekki mögu­leiki að svíkja mig svona út úr bar­áttunni um heims­meistara­titilinn. Það væri ekki mögu­legt, ekki séns.

Nauð­syn­legt er að rifja upp hvað átti sér stað í Abu Dhabi. Undir lok keppninnar var öryggis­bíll kallaður út eftir að Nicholas Latifi missti stjórn á bíl sínum og hafnaði á öryggis­vegg. Á þeirri stundu var Hamilton í fyrsta sæti í keppninni og nokkrir hringaðir bílar milli hans og aðal keppi­nautarins Max Ver­stappen.

Hringuðum bílum fyrir aftan öryggis­bílinn hafði verið skipað að halda sig fyrir aftan öryggis­bílinn þar sem að þeir voru stað­settir á milli Hamilton sem var í fyrsta sæti og Ver­stappen sem var í öðru sæti.

Keppnis­stjórn­endur á­kváðu hins vegar að breyta á­kvörðun sinni og leyfðu þeim bílum sem voru hring á eftir for­ystu­sauðunum að af­hringa sig. Frá þeirri stundu varð ljóst að Hamilton ætti erfitt upp­dráttar þar sem að Ver­stappen var á mun betri dekkja­gangi. Svo fór að hann tók fram­úr Hamilton og tryggði sér sigur í stiga­keppni öku­manna. Mót­mæli Mercedes voru ekki tekin gild en mánuðum eftir kapp­aksturinn var Michael Masi, keppnis­stjórinn látinn fara. Hann vinnur ekki lengur á vegum Al­þjóða akstur­s­í­þrótta­sam­bandsins (FIA)

,,Ég veit ekki hvort ég geti komið þeim í orð, til­finningunum sem ég upp­lifiði á þessum tíma. Ég man eftir því að hafa lagt bílum og setið á­fram í honum. Ég trúði því ekki að þetta hefði átt sér stað. Allt í einu áttaði ég mig á því að ég þyrfti að fara úr bílnum, ég þyrfti að klifra út og finna ein­hvern styrk, sem var enginn á þessum tíma. Þetta var ein erfiðasta stund sem ég hef upp­lifað í langan, langan tíma," segir Hamilton í sam­tali við Vanity Fair.

,,Ég vissi hvað hafði gerst, hvaða á­kvarðanir hefðu verið teknar og hvers vegna og já, ég vissi að ekki var allt með felldu."

Faðir Hamiltons tók á móti honum eftir kapp­aksturinn. ,,Hann tók utan um mig og sagði mér hversu stoltur hann væri af mér."

Þrátt fyrir þetta á­fall hefur Hamilton haldið á­fram í For­múlu 1 í liði Mercedes sem hefur verið að taka fram­fara­skref eftir því sem líður á tíma­bilið.