Breski ökuþórinn Lewis Hamilton vann í dag Formúlu 1-kappakstur sem fram fór í Tyrklandi.

Hamilton sem keyrir fyrir Mercedes Benz er þar af leiðandi orðinn Formúlu 1-meistari í sjöunda skipti.

Hann er þar með orðinn sigursælasti ökuþór í sögunni ásamt Þjóðverjanum Michael Schumacher.

Hamilton sem er sigursælasti ökuþór Formúlu 1 hvað kappakstra varðar með 94 sigra hóf kappaksturinn í dag í sjötta sæti endaði fyrstur í mark á blautri braut vegna mikillar úrkomu.

„Ég er eiginlega orðlaus á þessari stóru stundu í lífi mínu en mig langar að þakka þeim sem hjálpuðu mér að komast á þennan stað.

Þá langar mig að segja öllum þeim sem eiga drauma líkt og ég gerði sem ungur drengur að hætta aldrei að elta drauma sína. Það er ekkert ómögulegt,“ sagði Hamilton í samtali við fjölmiðla eftir kappaksturinn í dag.