Lewis Hamilton sagði það ótrúlega stund að hafa jafnað met átrúnaðargoðs síns úr æsku, Michael Schumacher, yfir flesta sigra í Formúlu 1-kappökstrum. Eftir að hafa unnið sinn 91. Formúlu kappakstur og jafnað þar með met Schumacher sem hafði staðið frá árinu 2012 var Hamilton nánast orðlaus.

Met Schumacher hafði staðið í 14 ár og raunar héldu margir þegar hann setti það að myndi aldrei vera jafnað eða bætt.

Það var táknræn stund þegar Mick Schumacher, sonur Michael, sem er að hefja sinn Formúlu 1-feril afhenti Hamilton hjálm sem Michael notaði á síðasta tímabili sínu árið 2012 eftir að breski ökuþórinn jafnaði met Þjóðverjans.

„Ég veit ekki hvað ég get sagt á þessari stundu. Ég fylgdist með afrekum Michael Schumacher þegar ég var að vaxa úr grasi og hann var átrúnaðargoðið mitt. Hann var frábær ökumaður og hélt stöðugleika í frábærum árangri sínum," sagði Hamilton auðmjúkur.

„Þegar ég byrjaði að keyra sjálfur vildi ég ávallt gera eins og Michael Schumacher og ég reyndi að herma eftir ökuhæfileiku hans. Michael Schumacher var stórkostlegur ökumaður og ég vildi feta í fótspor hans. Það var hins vegar bara í villtustu draumum mínum að ná að jafna afrek hans," sagði hann enn fremur.

„Það er gríðarlegur heiður fyrir mig að standa í þessum sporum þessa stundina og það mun taka mig einhvern tíma að átta mig á þessu. Það er erfitt að lýsa því hvernig mér líður núna, tilfinningarnar eru að flæða yfir mig og ég get ekki fest reiður á þeim strax," sagði breski ökuþórinn sem var greinilega hrærður.

Hamilton leysti Michael Schumacher af hólmi hjá Mercedes árið 2013. Nú þegar Hamilton hefur jafnað met Michael Schumacher yfir flesta sigra í Formúlu 1-kappökstrum er næst á dagskrá hjá honum að komast upp að hlið hans sem sigursælasti Formúlu 1-meistari í sögunni. Michael er sigursælastur með sjö Formúlu 1-titla en Hamilton kemur næst með sex titla.