Lewis Hamilton skrifaði undir eins árs samning við Mercedes-liðið í Formúlu 1 í gær. Tilkynnt var um samninginn á Twitter. Spekingar voru ekki lengi að leggja saman tvo og tvo og fá út fjóra og segja að 2021 verði síðasta árið hans í Formúlunni þó Hamilton hafi aldrei sagt neitt annað en að hann vilji halda áfram. Hamilton fær 40 milljónir punda fyrir árið eða sjö milljarða.

Samkvæmt erlendum miðlum var ástæðan fyrir því að hann skrifaði undir skammtímasamning sögð sú að verið væri að vinna í lengri samningi sem Mercedes er ekki viss hvort það vilji gera. Er Hamilton sagður vilja 10 prósent af öllu verðlaunafé sem Mercedes fær. Ef hann myndi vinna titilinn enn á ný eins og sá síðasti vannst myndi hann fá 13 milljónir punda í vasann eða rúmlega tvo milljarða. Þetta eru ekkert sérstaklega háar upphæðir í Formúlunni en Covid hefur komið við kappaksturinn eins og flest annað og því er Mercedes að vinna í aðeins öðruvísi fjárhagsáætlun en oftast áður.

Þá er Hamilton sagður vilja fá svokallað Veto atkvæði sem þýðir að hann myndi fá atkvæðisrétt á liðsfélaga fari svo að Mercedes losi sig við Valtteri Bottas.

Íslandsvinurinn Jim Ratcliffe, eigandi Ineos, gerði fimm ára samning við Mercedes í fyrra og samkvæmt erlendum miðlum var Ineos svo áfjáð í að halda Hamilton að það var tilbúið að greiða meirihluta launa hans.

Hamilton er orðinn 35 ára en það er ekkert farið að hægjast á kappanum eða bílunum sem hann ekur. Hann hefur unnið sjö heimsmeistaratitla og vantar einn í viðbót til að slá við sjálfum Michael Schumacher sem sigursælasti ökumaður allra tíma í Formúlunni.