Sir Lewis Hamilton, sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1 og ökumaður Mercedes, sýndi hvers hann er megnugur með öflugan bíl með sér í liði. Eftir að hafa fallið niður listan í byrjun keppninnar með sprungið dekk eftir baráttu við Kevin Magnussen, baráttu sem fékk hann til þess að vilja hætta keppni, vann hann sig upp listann og gerði mjög vel.

Mercedes náði að finna lausn á porpoising-vandamáli síns bíls og átti á heildina litið frábæra keppnishelgi á Barcelona með nýjum uppfærslum.

Hamilton hóf keppnina í 6. sæti en eftir baráttu við Kevin Magnussen í upphafi keppninnar féll hann niður listann með sprungið dekk og virtist vera búinn að gefa upp alla von á stigum er hann kom inn til þess að skipta um dekk.

,,Ég myndi spara þessa vél ef ég væri þið, mér þykir þetta leitt," mátti heyra Hamilton segja í gegnum samskiptatæki sitt við keppnisstjóra Mercedes, Peter Bonnington. Peter vildi hins vegar ekki gefast upp. ,,Við teljum okkur enn geta náð stigum, áttunda sæti eða jafnvel hærra," sagði hann til baka við Hamilton.

Frá því fór Hamilton að vinna sig jafnt og þétt upp listann sem varð til þess að hann komast alla leið upp í 4. sæti en þurfti hins vegar að gefa það frá sér til Carlos Sainz, ökumanns Ferrari, undir lok keppni sökum þess að vél hans var að ofhitna. Hamilton fékk skilaboð frá keppnisstjóra sínum að hann yrði að gefa eftir annars myndi hann eiga hættu á því að falla úr leik.

Liðsfélagi Hamilton, George Russell gerði frábæra hluti og átti um stund magnaða baráttu við ríkjandi heimsmeistarann Max Verstappen sem leyfði áhorfendum að láta hugann reika til síðasta tímabils þar sem að Red Bull og Mercedes háðu sögulega baráttu.

Russell endaði í 3. sæti á eftir Red Bull ökumönnunum tveimur á keppnishelgi sem mætti kalla mikið framfaraskref fyrir Mercedes.