Sir Lewis Hamilton finnur til með aðdáendum Formúlu 1 mótaraðarinnar í því sem mætti kallast ansi óspennandi endasprett á mótaröðinni. Nú þegar nokkrar keppnishelgar eru eftir af tímabilinu er Max Verstappen, ökumaður Red Bull Racing með níu fingur á heimsmeistaratitlinum.

Titilbaráttan milli Hamilton og Verstappen réðist ekki fyrr en í lokakeppni síðasta tímabils en allt önnur sviðsmynd blasir við núna.

„Ég finn til með aðdáendunum. Það var um háspennu að ræða á síðasta tímabili og það er aldrei gaman þegar að tímabilið ræðst svona snemma eins og staðan er núna. En fyrir þig, ef þú ert í forystunni eru þetta kjörnar aðstæður."

Fyrir íþróttina er þetta ekki ákjósanlegt en Hamilton þekkir báðar sviðsmyndir eftir sína sjö heimsmeistaratitla. Hann hefur bæði unnið titilinn með miklum mun en líka tryggt sér hann undir lok tímabils eins og var raunin í Brasilíu árið 2008.