Það var fyrir til­­­stilli sjö­falda For­múlu 1 heims­­meistarans Sir Lewis Hamilton að allir 20 öku­­menn mótaraðarinnar komu saman í gær og áttu góða kvöld­­stund á veitinga­­stað í Abu Dhabi til þess að hylla goð­­sögnina Sebastian Vet­tel, fjór­faldan heims­­meistara í For­múlu 1 sem kveður móta­röðina á sunnu­­daginn. Hamilton bætti um betur og borgaði reikninginn á veitinga­­staðnum fyrir alla öku­­mennina.

Það er The Sun sem greinir frá þessu en af færslum margra öku­manna For­múlu 1 á sam­­fé­lags­­miðlum í gær­­kvöldi mátti sjá og lesa að um sér­­s­taka kvöld­­stund hafi verið að ræða sem allir hafi notið enda ekki á hverjum degi sem öku­­mennirnir deila saman stund utan kapp­aksturs­brautarinnar.

Ekki fylgir sögunni hversu mikið reikningurinn hjá hópnum hljóðaði upp á en Hamilton er ekki á flæðar­skeri staddur svo lík­­legast hefur hann ekki þurft að taka greiðsluna sem rað­­greiðslu.

Vet­tel hefur á­kveðið að láta gott heita í Formúlu 1, í það minnsta í bili, en þessi 35 ára gamli Þjóðverji hefur eins og áður sagði unnið fjóra heims­meistara­titla og komu þeir allir í röð tíma­bilin 2010-2013. Þá hefur Vet­tel unnið 53 keppnir á sínum ferli, staðið 122 sinnum á verð­launa­palli og þá er hann yngsti heims­meistari öku­manna í For­múlu 1 frá upp­hafi.