Sir Lewis Hamilton, sjö­faldur heims­meistari í For­múlu 1 og nú­verandi öku­maður Mercedes segist hafa brugðist liði sínu í Singa­púr kapp­akstrinum í gær. Hamilton skrifar til­finninga­ríka færslu á sam­fé­lags­miðlum í dag þar sem hann biðst af­sökunar eftir að hafa endað 9. sæti í Singa­púr.

Bretinn öflugi var lengi vel í mjög á­kjósan­legri stöðu eftir að hafa hafið keppni helgarinnar í 3. sæti. Öku­menn þurftu að glíma við erfiðar að­stæður, blauta braut á einni erfiðustu braut tíma­bilsins og á einum tíma­punkti endaði Hamilton í veggnum og féll niður um sæti, mögu­leikar á sæti á verð­launa­palli fuku þá út um gluggann.

Hamilton segist þakk­látur fyrir að líta annan dag. „Gær­dagurinn var sárs­auka­fullur, dagur sem ég vil gleyma. Eftir svona dag eru hugsanirnar og til­finningarnar djúpar, ég brást liðinu mínu og öllum þeim sem styðja mig.

Það að mis­takast verður alltaf erfitt að takast á við en við megum samt ekki láta mis­tök halda aftur af okkur. Ég verð að stíga upp og halda á­fram að reyna. Ég mun ekki gefast upp á ykkur því ég veit að þið munuð ekki gefast upp á mér."

Keppnin í Singa­púr er fyrsta keppni Hamilton á For­múlu 1 ferlinum sem hann fer inn í án þess að eiga mögu­leika á heims­meistara­titlinum. Þá hefur honum ekki tekist að vinna kapp­akstur á árinu og nái hann því ekki áður en tíma­bilinu lýkur verður það fyrsta tíma­bilið á hans ferli sem hann fer í gegnum án sigurs.

Færslan sem Hamilton birti á samfélagsmiðlum
Mynd: Skjáskot