Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs Selfoss, í handbolta, hefur verið ráðinn þjálfari landsliðs Barein í handbolta karla.

Það er handbolti.is sem greinir frá þessum tíðindum.

Þar segir að samningur Halldórs Jóhanns við handbotasamband Barein sé fram yfir heimsmeistaramótið sem fram fer í Egyptalandi í janúar næstkomandi.

Halldór Jóhann var í þjálfarateymi Arons Kristjánssonar hluta þess tíma sem Aron var við stjórnvölinn hjá Barein.

Nú verður Halldór Jóhann í brúnni hjá bareinska liðinu fram í febrúar. Á þeim tímapunkti verður staðan svo metin hvað framhaldið varðar.