Hallbera Guðný Gísladóttir, bakvörður íslenska kvennalandsliðsins, tilkynnti á Instagram í kvöld að leikurinn í dag hefði verið hennar síðasti fyrir landsliðið.

Skagamærin byrjaði alla leiki Íslands á mótinu en var tekin af velli um miðbik seinni hálfleiksins í dag.

Hún er þriðja leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi á eftir Söru Björk Gunnarsdóttur og Katrínu Jónsdóttur með 130 landsleiki.

Hún skoraði þrjú mörk og fór með íslenska kvennalandsliðinu á þrjú stórmót.

„Óendanlega stolt af þessu liði 🤍
Ljúkum því miður keppni fyrr en við hefðum viljað en HM býður handan við hornið - það er ég viss um. Ísland mætir þar til leiks með unga leikmenn sem eiga glæsta framtíð og eru reynslunni ríkari, ásamt eldri og reyndari leikmönnum sem vísa veginn.
Einhverntíman þarf allt að taka enda, en leikurinn í kvöld var minn síðasti á ferlinum.
Frá mínum dýpstu hjartarótum TAKK FYRIR MIG,“ skrifar Hallbera á Instagram-síðu sinni í kvöld.