Lukasz Piszczek, leikmaður Borussia Dortmund, lék sinn síðasta leik fyrir félagið í gær þegar liðið lagði RB Leipzig að velli í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar, 4-1.

Þessi 35 ára pólski varnarmaður hefur leikið með Dortmund frá árinu 2010 og gengið í gegnum súrt og sætt með félaginu. Hann varð þýskur meistari með liðinu árin 2011 og 2012 og þá hefur hann í þrígang unnið bikarkeppnina með liðinu.

Það var tilfinningaþrungin stund þegar flautað var til leiksloka í gær og brast varnarmaðurinn í grát þegar ljóst var að hann myndi ekki spila oftar í treyju Dortmund. Liðsfélagar hans hlupu til hans og fékk hann góða tolleringu eftir leik eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Tvær umferðir eru enn eftir í þýsku deildinni og er Borussia Dortmund í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu að ári. Í umfjöllun Mail Online kemur fram að Piszczek láti nú gott heita en ætlaði í fyrstu að flytja heim til Póllands eftir síðasta tímabil. Forráðamenn Dortmund fengu hann til að vera eitt tímabil í viðbót.

Piszczek sagðist vera orðlaus yfir stuðningnum eftir leik og sagði að ekki væri hægt að kveðja á betri hátt. „Ég vildi alltaf kveðja með titli og í dag tókst okkur það. Ég er mjög stoltur,“ sagði hann.

Piszczek er á leið aftur til Póllands þar sem hann ætlar að fást við þjálfun hjá LKS Goczalkowice sem leikur í þriðju efstu deild, en Piszczek ólst upp hjá félaginu áður en hann hélt í atvinnumennsku til Þýskalands árið 2004.

Mats Hummels og Mahmoud Dahoud sýndu félaga sínum góðan stuðning eftir leik í gær.