Verslunarkeðjan Hagkaup hefur ákveðið að fresta dönskum dögum verslunarinnar eftir úrslit gærkvöldsins á Evrópumótinu í handbolta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagkaup. Tap danska landsliðsins gegn Frökkum í gærkvöldi þýddu að Ísland átti ekki möguleika á sæti í undanúrslitum mótsins.

,,Kæru viðskiptavinir. Í ljósi aðstæðna teljum við að landinn sé ekki alveg tilbúinn í Danska daga svo við höfum ákveðið að fresta þeim um óákveðin tíma. Nánari tilkynning kemur síðar í takt við líðan þjóðarinnar," segir í tilkynningu frá Hagkaup.

„Það þarf að vera rétta mómentið fyrir svona uppákomur. Við viljum hafa allan varan á og að landinn sé búinn að gleyma, farinn að horfa á bjartari tíma, kominn út úr Covid og farinn að brosa þegar við hendum í Dönsku dagana,“ segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, í samtali við Vísi.