Aflraunamennirnir Hafþór Júlíus Björnsson og Eddie Hall sem hafa átt í deilum í tengslum við keppnina sterkasti maður heims áttu að mætast í hnefaleikabardaga en Hall þurfti að draga sig úr keppni vegna meiðsla.

Bardaginn fer fram í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í næsta mánuði.

Meiðsli komu í veg fyrir að Hall gæti gefið kost á sér að þessu sinni en stefnt er að því að Hall og Hafþór Júlíus mætist í hringnum á næsta ári.

Í stað Hall kemur Devon Larratt sem er þungavigtarmeistari í sjómann en Larratt og Hafþór hafa mæst í sjómanni.

Hinn 46 ára gamli Larratt var um tíma í kanadíska hernum en hefur undanfarin ár getið sér góðs orðs í keppnum í sjómanni og unnið fjölmarga titla fyrir afrek sín á því sviði.