„Það var ekki um auðugan garð að gresja því það er lítið um litríkar klippingar á þessu móti eins og oft hefur verið áður,“ segir Hafliði Breiðfjörð, eigandi og ritstjóri fótbolti.net, en hann klippti sig í gær eins og Frakkinn fjallmyndarlegi Oliver Giroud.

Þegar Heimsmeistaramótið í fótbolta var að hefjast voru strákarnir á skrifstofu fótbolti.net að ræða saman og samdi Hafliði við Guðmund Aðalstein Ásgeirsson um að hann myndi fá sér svokallaða HM-klippingu. HM-klippingar í gegnum tíðina hafa verið vinsælar. David Beckham birtist á HM 2002 með hanakambinn og hermdu ótrúlega margir eftir hárstíl hans það sumar. Ronaldo, hinn brasilíski, birtist á sama móti með einhvern furðulegasta hártopp síðari ára og Rúmenar aflituðu hár sitt árið 1998. Svona til að taka saman nokkur dæmi.

Það hafa oft verið skrautlegar greiðslur á HM en nú er ekkert að frétta í hármálum.
Mynd/Samsett

Í ár er þó lítið um hársprell meðal leikmanna. Það eru fáir eins og Taribo West, Abel Xavier eða jafnvel Roberto Baggio með sitt hárskott. Einfaldleikinn ræður einfaldlega för enda HM í Katar þar sem ekkert öðruvísi er leyft. Ronaldo hinn portúgalski er með hálf undarlega rönd í hárinu og Íslandsvinurinn Phil Foden er með drengjaklippingu en tvær rendur í augabrúnunum sínum – sem seint verður talið mjög töff.

„Ég var fyrst að spá í að vera eins og Phil Foden en hann spilaði svo eiginlega ekkert í riðlakeppninni. Eftir að hafa skoðað þetta aðeins þá þorði ég ekki í Richarlison frá Brasilíu sem er með aflitað hár og stall. Niðurstaðan var Giroud sem er með aflitaðan topp.“

Giroud þessi bætti markamet Frakka á mótinu og er yfirleitt á listum flestra yfir kynþokkafyllstu leikmenn HM. Hann er 36 ára og giftur Jennifer síðan 2011 og eiga þau fjögur börn saman. Hann er afar trúaður, var andlit Hugo Boss árið 2014 og valinn kynþokkafyllsti leikmaður ensku deildarinnar árið 2015.

Linda Rós á Hárrétt í Kópavogi snyrti Hafliða og gerði hann eins og franska goðið. „Toppurinn var að aflita toppinn. Það er Giroud. Það er aðalmálið. Ég er afar stoltur og glaður yfir að hafa valið Giroud en gleðst samt mest yfir að efna loforðið. Maður á alltaf að standa við gefin loforð. Mamma kenndi mér það,“ segir Hafliði.

Linda Rós á Hárrétt með Hafliða í skolun.