Kyrie Irving, leikstjórnandi Brooklyn Nets í NBA-deildinni, segist hafa tapað hundrað milljónum dala á því að hafa ekki þegið bóluefni við Covid-19. Honum hafi staðið til boða nýr samningur en nú sé framtíð hans í óvissu.

Irving var einn af nokkrum leikmönnum innan NBA-deildarinnar í körfubolta sem neituðu að fá bólusetningu við Covid-19.

Fyrir vikið gat hann lítið sem ekkert komið við sögu fyrri hluta síðasta tímabils þegar sóttvarnarreglur komu í veg fyrir þáttttöku hans í leikjum.

„Ég þurfti að gefa eftir fjögurra ára samningi upp á rúmlega hundrað milljónir dala því ég vildi ekki fá bólusetningu. Mér var sagt að það væri starfsöryggi með bólusetningu en ef ég myndi afþakka hana væri óvissa um framtíðaráhorfur mínar innan deildarinnar.“

Irving á eitt ár eftir af samningi sínum við Brooklyn Nets sem tryggir honum 36,5 milljónir dala eða um 5,3 milljarða íslenskra króna.

Hinn þrítugi Irving hefur unnið einn meistaratitil með liði Cleveland Cavaliers en hefur verið á talsverðu flakki undanfarin ár.