Sigmundur hefur bætt þremur leikjum í safnið síðan þá en ferill hans er einkar áhugaverður í ljósi þess að það var í raun tilviljun sem varð til þess að hann gerðist dómari árið 1994. „Á þessum tíma hafði ég dæmt leiki á æfingamótum og hjá yngri flokkum. Vinnufélagi minn á þessum tíma, harður Grindvíkingur, Jón Emil, pressaði á mig að fara á dómaranámskeið. Ég sá fram á það að ef ég myndi fara á dómaranámskeið á vegum Grindavíkur þá gæti ég ekki dæmt leiki fyrir Njarðvík eða Grindavík eins og þetta var sett upp þá. Það varð úr að ég fór á námskeiðið en var skráður dómari fyrir Njarðvík,“ sagði Sigmundur í samtali við Fréttablaðið

Sigmundur var leikmaður Njarðvíkur á þessum tíma en fann að tekið var að fjara undan leikmannaferli hans. Hann ákvað að slá til og tók dómarapróf árið 1994. „Það var sem sagt að frumkvæði vinnufélaga míns sem ég skráði mig á dómaranámskeið hjá KKÍ og hef ekki litið til baka síðan.“

Ekki tími fyrir stress

Sigmundur hafði nú tekið sín fyrstu skref sem körfuknattleiksdómari og í kjölfarið fékk hann sitt fyrsta tækifæri í efstu deild sem slíkur. Undirbúningurinn fyrir hans fyrsta stóra próf var hins vegar knappur. „Ég man vel eftir fyrsta leiknum sem ég dæmdi í efstu deild. Þennan dag var leikur klukkan átta um kvöldið þar sem Keflvíkingar tóku á móti Valsmönnum. Á leikdeginum sjálfum í aðdraganda leiksins forfallaðist einn dómarinn.Fulltrúi dómaranefndar KKÍ á þessum tíma hringdi í mig og ég var beðinn um að dæma. Ég fékk svona fimm mínútur til að undirbúa mig fyrir þennan fyrsta leik í efstu deild sem ég dæmdi með Kristjáni Möller.“

Sigmundur dreif sig í dómarabúninginn heima fyrir og hafði í raun ekki tíma til þess að vera stressaður fyrir sinn fyrsta leik í efstu deild. „Þegar ég mætti í hús blés Kristján í flautuna og gaf til kynna að ein mínúta væri í að leikurinn yrði flautaður á. Ég hafði engan tíma til þess að vera stressaður, aðalmálið var að komast á leikstað áður en leikurinn átti að hefjast.“

Sigmundur hafði ekki tíma til þess að vera stressaður fyrir sitt fyrsta verkefni sem dómari í efstu deild og á nú að baki yfir tvö þúsund leiki sem dómari í verkefnum á vegum KKÍ. Verður hann stressaður fyrir leiki?

„Nei, ég verð ekki stressaður fyrir leiki en ég fæ alveg fiðring í magann oftast. Það er hins vegar góð tilfinning sem tengist meira eftirvæntingu. Fólki finnst það kannski ótrúlegt þegar að ég segi þetta en mér finnst þetta svo ótrúlega skemmtilegt starf. Ég væri náttúrlega löngu hættur ef mér fyndist þetta ekki skemmtilegt, annað væri bara geðveiki, sagt í góðri meiningu," sagði Sigmundur Már Herbertsson,

Víðtal við Sigmund Má Herbertsson, körfuknattleiksdómara, birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 26. nóvember. Viðtalið í heild sinni birtist á vef Fréttablaðsins á sunnudaginn.