Það verður ekki annað sagt en að tími Ole Gunnar Solskjær sem knattspyrnustjóra Manchester United hafi verið á þrotum eftir neyðarlegt 1-4 tap gegn Watford um síðustu helgi. Það var fimmta tap Manchester United í síðustu sjö leikjum, sem er versti árangur deildarinnar á þeim tíma. Solskjær lifði af niðurlægjandi töp gegn erkifjendunum í Manchester City og Liverpool á dögunum en frammistaðan gegn Watford reyndist kornið sem fyllti mælinn. Stuðningsmenn Manchester United voru góðu vanir eftir að hafa fylgst með sama manni í brúnni í 27 ár.

Sir Alex Ferguson leiddi félagið í gegnum gullaldartímabilið þegar Manchester United vann þrettán meistaratitla eða tæplega annað hvert ár með Ferguson í brúnni. Ferguson fékk svo að handvelja arftaka sinn, David Moyes, sem reyndist ekki starfinu vaxinn. Moyes átti erfitt uppdráttar í starfi og var því leitað til reynslumeiri manna, Louis van Gaal og Jose Mourinho.

Þeir náðu báðir að skila félaginu bikar til að lyfta en vandræði innan sem utan vallar í sambland við vonbrigði í deildarkeppninni réðu örlögum þeirra og voru þeir báðir reknir. Á stuttum tíma sem bráðabirgðastjóri heillaði Ole Gunnar Solskjær stuðningsmenn og stjórn félagsins en Norðmanninum tókst ekki að fylgja því eftir og vinna bikar. Það er ekki hægt að segja að neinn af þessum fjórum hafi ekki fengið stuðninginn sem til þurfti á leikmannamarkaðnum. Félagið hefur keypt leikmenn fyrir rúman milljarð punda og selt fyrir um fjögur hundruð milljónir punda og er með þrjá af 20 dýrustu leikmönnum allra tíma í leikmannahóp sínum

6,67% allra brottrekstra í ensku úrvalsdeildinni eftir að Sir Alex Ferguson hætti má rekja til Manchester United.

GettyImages

David Moyes
51 leikur
27 sigrar
9 jafntefli
15 töp
52,9 prósenta sigurhlutfall
Engir titlar
Leikmannakaup: 77 milljónir evra

Getty Images

157 knattspyrnustjórar voru reknir eða komust að samkomulagi um starfslok í efstu deild Englands á þeim tíma sem Sir Alex Ferguson stýrði liði United.

Louis van Gaal
103 leikir
54 sigrar
25 jafntefli
24 töp
52,4 prósenta sigurhlutfall
Vann enska bikarinn
Leikmannakaup: 351 milljón evra

Jose Mourinho
144 leikir
84 sigrar
32 jafntefli
28 töp
58,3 prósenta sigurhlutfall
Vann deildarbikarinn og Evrópudeildina
Leikmannakaup: 466 milljónir evra

38 milljónir punda er félagið búið að greiða í starfslokagreiðslur til Solskjær, Mourinho, van Gaal og Moyes.

GettyImages

Ole Gunnar Solskjær
168 leikir
91 sigur
37 jafntefli
40 töp
54,2 prósenta sigurhlutfall
Engir titlar
Leikmannakaup: 459 milljónir evra