Ashleigh Barty tilkynnti í nótt að hún hefði ákveðið að leggja tennisspaðann á hilluna, aðeins nokkrum vikum eftir að hún vann opna ástralska meistaramótið. Þessi 25 ára stjarna er efst á heimslistanum í tennis.

Barty var samkvæmt bandaríska tekjutímaritinu Forbes áttunda launahæsta íþróttakona heims á síðasta ári og er fjórtánda tekjuhæsta íþróttakona sögunnar.

Árið 2019 varð Barty fyrsti Ástralinn í átta ár til að vinna einn af risatitlunum fjórum þegar hún stóð uppi sem sigurvegari á Opna franska meistaramótinu.

Henni tókst að bæta Wimbledon við metorðasafnið á síðasta ári og Opna ástralska á heimavelli í byrjun þessa árs og vantaði því aðeins Opna bandaríska meistaramótið til að ljúka slemmu (e. grand slam).

Barty kvaðst vera orðin þreytt á líkama og sál og sagði að hún væri búin að vera að íhuga að hætta undanfarin ár.

Þetta er í annað sinn sem hún hættir en árið 2014 tilkynnti hún að hún væri hætt til að hlúa að andlegri heilsu sinni og einbeitti sér að krikket áður en hún sneri aftur árið 2016.

Ástralinn hefur undanfarin ár verið efst á heimslistanum í tennis.