Þannig hófst færsla frá vinum Ágústar H. Guðmundssonar, körfuboltagoðsagnar á Akureyri, sem lést langt fyrir aldur fram fyrr á þessu ári eftir baráttu við taugahrörnunarsjúkdóminn MND.

Ágúst hóf körfuboltaferil sinn í Hafnarfirði en flutti til Akureyrar árið 1982 þar sem að hann átti heldur betur eftir að láta til sín taka, körfuboltasamfélaginu á Akureyri til góðs. Hann bæði spilaði og þjálfaði körfubolta fyrir norðan við góðan orðstír. Einar Örn Aðalsteinsson, er einn af þeim sem Ágúst hafði áhrif á í gegnum körfuboltastarf sitt á Akureyri.

,,Ágúst þjálfaði okkur félagana bæði í yngri flokkum og í meistaraflokki, körfubolti var okkar sameiginlegi hlutur. Fljótlega eftir að hann lést fórum við félagarnir að ræða það okkar á milli hvað við gætum gert til þess að heiðra minningu hans og þá kom upp þessi hugmynd að byggja körfuboltavöll," segir Einar í samtali við Fréttablaðið.

,,Við vorum fjórir í upphafi sem fórum af stað með þetta. Fyrsta verkefni hjá okkur var að finna lóð fyrir Garðinn hjá Akureyrarbæ. Okkur var tekið rosalega vel, við fengum lóð og bærinn féllst á að borga helminginn af uppbyggingu vallarins," segir Einar en hinn helmingur vallarins er fjármagnaður í gegnum söfnunarátak þar sem hver sem er getur lagt sitt af mörkum.

Garðurinn hans Gústa er nafn sem varð til út frá því að Ágúst var mikill stuðningsmaður NBA liðsins Boston Celtics. ,,Heimavöllur þeirra kallast Garðurinn og því lá það beinast við að reisa Garðinn hans Gústa," segir Einar Örn í samtali við Fréttablaðið.

Þó svo að hægt sé að spila körfubolta á vellinum núna er hann ekki fullgerður. Til viðbótar við völlinn sjálfan á eftir að reisa veglega þriggja hæða áhorfendastúku, reisa minnisvarða og setja upp ljós sem verður gert á næstu mánuðum.

Verkefnið er ekki fullfjármagnað en enn er hægt að leggja söfununinni lið. Um sjö milljónir króna hafa safnast en markmiðið er að safna tíu milljónum. Fyrir þau sem vilja leggja málefninu lið er hægt að finna upplýsingar hér fyrir neðan:

Reikningsnr. 0302-26-000562 - Kt.4203210900