Ís­lenska kvenna­lands­liðið varð Evrópu­meistari í hóp­fim­leikum í kvöld er liðið vann með 57,250 stigum. Það hefði ekki getað verið tæpara en liðið fékk jafn mörg stig og sænska kvenna­lands­liðið en þar sem Ís­land var með hærri ein­kunnir á gólfi og trampólíni unnu þær titilinn.

Að­eins munaði 0,6 stig á Ís­landi og Sví­þjóð þegar ein um­ferð var eftir. Sænska liðið átti eftir að gera trampólín og það ís­lenska dýnu. Sænsku stelpurnar voru með tvö föll á trampólíninu og því öll pressan á Ís­landi að klára mótið með góðum dýnu­æfingum.

Í annarri um­ferð á dýnunni lenti hins vegar lands­liðs­fyrir­liðinn Andrea Sif Péturs­dóttir illa. Hún gaf strax merki um það að hún gat ekki skilað sér í þriðju og síðustu um­ferðina.

Andrea Sif tók ekki annað í mál en að fagna með liðsfélögum sínum og bar Þorgeir Ívarsson landsliðsþjálfara fyrirliðann á bakinu.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

Ás­dís Guð­munds­dóttir sjúkra­þjálfari ís­lenska liðsins hljóp sam­stundis til hennar. Andrea hafði þó lítinn á­huga á meiðslum sínum og fylgdist grannt með liðinu klára síðustu um­ferðina á meðan Ás­dís gerði að fætinum hennar.

Fyrstu fregnir frá sjúkra­þjálfar­teymi Ís­lands herma að lands­liðs­fyrir­liðinn hafi slitið hásin.

Eftir verðlaunaafhendinguna var farið með Andreu upp á spítala. Birt með leyfi.
Ljósmynd/Magnús H. Jónasson

María Líf Reynis­dóttir var til­búin á línunni og fékk hún merki um að hún þurfti að hoppa inn og stökkva í síðustu um­ferðinni.

„Ég er að horfa á þær stökkva og ég sé að hún slasar sig og leggst niður á jörðina. Þannig ég hugsaði bara ok vera ró­leg. Ég veit hvað ég þarf að gera,“ segir María Líf í sam­tali við Frétta­blaðið

María Líf Reynisdóttir steig inn á síðustu stundu og hjálpaði liðinu yfir línuna.
Ljósmynd/Magnús H. Jónasson

„Ég á­kvað að vera bara ró­leg og rústa þessu,“ segir María sem negldi stökkið sitt og hjálpaði Íslandi yfir línuna.

Þriðja og síðasta stökk­um­ferðin hjá Ís­landi var stór­slysa­laus og þurfti liðið að fá 17,200 stig til að vinna titilinn. And­rúms­loftið var raf­magnað á meðan stelpurnar biðu eftir niður­stöðunni og ætlaði allt um koll að keyra þegar niður­staðan var ljós.

„Ég er ekki alveg búinn á að átta mig á þessu,“ sagði María Líf eftir mótið. „Það kemur örugg­lega spennu­fall í kvöld,“ bætti hún við.

Hér að neðan má sjá myndbandið þegar úrslitin voru ljós.