Samkvæmt fréttum frá Englandi er klásúla í samningi Erling Haaland við Manchester City sem gerir honum kleift að fara til Real Madrid.

Haaland er stærsta stjarna fótboltans í dag en hann hefur skorað þrjár þrennur í röð á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni.

City borgaði 51 milljón punda fyrir Haaland í sumar en slík klásúla var í samningi hans við Borussia Dortmund.

Ekki kemur fram hvernig klásúlan í samningi Haaland við City virkar en sagt er að hann geti farið til Real Madrid árið 2024.

Öll stærstu lið í Evrópu höfðu áhuga á norska framherjanum í sumar. Þessi 22 ára sóknarmaður valdi City en vildi halda í klásúlu sem hann fékk í gegn.

Ensk blöð segja að City reyni nú eftir fremsta megni að endursemja við Haaland og taka klásúluna út, félagið þarf þó líklega að hækka laun Haaland vilji félagið fá klásúluna út.