Gylfi Þór Sigurðsson hefur aldrei tapað gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í átta leikjum og hefur komið að mörkum í þremur af síðustu fjórum leikjum sínum gegn Villa.

Aston Villa tekur á móti Everton í fyrsta leik þriðju umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Nýliðarnir í efstu deild, Aston Villa, eru án stiga eftir tvær umferðir á meðan Everton er með fjögur stig.

Gylfi reyndist Aston Villa erfiður síðustu ár Aston Villa i efstu deild þegar Hafnfirðingurinn lék með Swansea.

Í fjórum viðureignum með Swansea lagði Gylfi upp sigurmarkið einu sinni og skoraði tvívegis í fjórum sigrum gegn Aston Villa. Gylfi kom því að þremur af fimm mörkum Swansea í þessum fjórum leikjum.

Þar áður mætti Gylfi liði Aston Villa fjórum sinnum sem leikmaður Tottenham og unnust allir leikirnir nokkuð sannfærandi. Markatalan var 11-0 fyrir Tottenham í þessum leikjum og lagði Gylfi Þór upp eitt mark.

Í eina skiptið sem Gylfi hefur mætt Aston Villa í bikarkeppni mátti Gylfi sætta sig við tap sem leikmaður Reading fyrir níu árum síðan.