Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörk Everton þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á Goodison Park í kvöld.

Fyrra mark Gylfa Þór kom af vítapunktinum sem James Rodriguez nældi í eftir sendingu frá Gylfa.

Seinna mark íslenska landsliðsfyrirliðans sem bar fyrirliðabandið hjá Everton í þessum leik var einkar huggulegt. Seamus Coleman sendi þá boltann fyrir og Gylfi kláraði færið af stakri prýði.

Harry Kane skoraði bæði mörk Tottenham Hotspur í leiknum. Kane fór svo meiddur af velli í uppbótartíma leiksins.

Eftir þessi úrslit er Tottenham Hotspur í sjöunda sæti deildarinnar með 50 stig og Everton sæti neðar með 49 stig.

Gylfi Þór hefur nú skorað sex deildarmörk á yfirstandandi keppnistímabili.

Fréttablaðið/Getty