Gylfi Þór Sigurðsson hefur, samkvæmt heimildum AS Marca í Tyrklandi, samþykkt samningstilboð Galatasaray þar í landi.

Samningur Gylfa við Everton rann út á dögunum. Hann hefur hins vegar ekkert spilað knattspyrnu í meira en ár þar sem mál hans er í rannsókn. Hann er grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi.

Gylfi Þór má sem stendur ekki ferðast frá Bretlandi vegna lögreglurannsókn. Nýjar fréttir gætu þó borist af hans málum þann 16. júlí.

Samkvæmt fréttinni mun Gylfi þéna 1,7 milljón punda á tímabili. Það gera rúmar 276 milljónir íslenskra króna.

Everton keypti Gylfa Þór frá Swansea fyrir um 40 milljónir punda árið 2017. Gerði hann þá fimm ára samning, þann sem rann út nú á dögunum.

Gylfi á að baki 78 leiki fyrir íslenska A-landsliðið. Í þeim hefur hann skorað 25 mörk. Hann hefur þó ekki leikið fyrir Íslands hönd undanfarið af ofangreindum ástæðum.