Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson gæti þurft að bíða niðurstöðu úr máli sínu lengi, jafnvel eitt til tvö ár. Þetta segir Páll Kristjánsson, lögfræðingur í samtali við Vísi.

Yfir ár er liðið í dag frá því að knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson var handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Í vor var tilkynnt að hann fengi að ganga laus gegn tryggingu og væri áfram í farbanni til 16. júlí en sá dagur er liðin og lögregan í Manchester, segist í samtali við Fréttablaðið ekki ætla að tjá sig um hvort lausn gegn tryggingu sé framlengd eða ekki. Þessa stöðu hefur hún líka tekið í máli annars knattspyrnumanns, Mason Greenwood, leikmanns Manchester United.

Páll Kristjánsson, lögfræðingur segir í samtali við Vísi að ekki væri um óeðlilegan afgreiðslutíma á málinu að ræða en margir hafa undrað sig á því hversu langan tíma taki að ákveða næstu skref.

„Ef þetta væri íslenskt mál þá væri þetta alla vega ekkert óeðlilegur afgreiðslutími á máli þótt deila megi um það hvort hann sé ásættanlegur. Ég held að meðalafgreiðslutími í kynferðisbrotamálum hjá embætti Héraðssaksóknara sé í kringum 170 dagar, og á þá eftir að taka tilit til rannsóknar lögreglu og meðferðar hjá dómstólum. Sakborningar og brotaþolar bíða þá bara í von og óvon, eins og virðist vera í þessu máli Gylfa,“ segir Páll.

Gylfi gæti þurft að bíða niðurstöðu lengi en hann er í farbanni.

„Þegar þvingunaraðgerðum er beitt, eins og farbanni og gæsluvarðhaldi, þá vill lögreglan vinna eins mikla rannsóknarvinnu og hægt er á þeim tímapunkti. Eftir það er það bara svo algengt að mál „sofni“ hjá ákærusviðinu, þannig að það gæti enn þurft að bíða heillengi eftir niðurstöðu. Rannsóknin sem slík rýfur fyrningu, svo að málið fyrnist ekki á meðan það er í þessum farvegi. Ég held að það sé alveg vonlaust að segja til um hversu löng biðin verður í viðbót. Við gætum þurft að bíða 1-2 ár enn,“ segir Páll í samtali við Vísi.

Hann varar fólk við að lesa of mikið í aðgerðir lögreglunnar í Manchester, enda sé lítið vitað um málsatvik. Hins vegar hafi ekki verið gripið til alvarlegustu þvingunarúrræða, til dæmis gæsluvarðhalds og það kunni að gefa einhverjar vísbendingar um framvindu málsins.

Gylfi er nú án félags eftir að samningur hans við enska úrvalsdeildarfélagið Everton rann út fyrr í sumar.

Hver bendir á annan

Lög­reglan í Grea­ter Manchester, benti blaða­manni Fréttablaðsins á að hafa sam­band við sak­sóknara­em­bætti ríkisins til þess að fá upp­lýsingar um fram­vindu málsins þegar leitast var eftir því í síðasta mánuði.

,,Það er best fyrir ykkur að hafa sam­band við sak­sóknara­em­bætti breska ríksins (e. Crown Prosecution Service) þar sem þau ætti að vera með nýjustu vendingar í málinu á hreinu," sagði í skrif­legu svari lög­reglunnar í Grea­ter Manchester við fyrir­spurn Frétta­blaðsins.

Frétta­blaðið hafði því sam­band við sak­sóknara­em­bætti breska ríkisins líkt og lög­reglan í Grea­ter Manchester hafði lagt til að yrði gert. Í þeirri fyrir­spurn var leitað eftir upp­lýsingum um stöðu málsins en lítið var um svör þar og vísað aftur á lög­regluna í Grea­ter Manchester.

,,Þú þarft að ræða við lög­regluna til að fá þessar upp­lýsingar," sagði í svari sak­sóknara­em­bætti breska ríkisins við fyrir­spurn Frétta­blaðsins.

Ekki er ljóst á þessari stundu hver fram­vinda máls Gylfa Þórs verður en kostirnir eru þrír í stöðunni.

Þeir eru að málið verði látið falla niður og Gylfi verði þá frjáls maður, að rann­sókn haldi á­fram og að Gylfi verði þá á­fram laus gegn tryggingu eða að verði á­kærður.